Frummælandi er Dr. Ágústa Pálsdóttir, dósent við HÍ. Erindi hennar ber yfirskriftina Upplýsingaleit á Internetinu – Heilsa og lífsstíll. Málstofan er haldin í Stakkahlíð, aðalbyggingu menntavísindasviðsins (stofu E205) á vegum RANNUM, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun og.

Umræðuefnið er möguleikar mismunandi þjóðfélagshópa til að afla upplýsinga á Internetinu. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um mikilvægi heilsueflingar. Brýnt er að auka þekkingu á því hvernig upplýsingum og fræðslu um heilsusamlega hegðun verður komið á framfæri við mismunandi hópa í samfélaginu á sem árangursríkastan hátt. Slík þekking er afar mikilvæg og þjónar þeim tilgangi að gera miðlun upplýsinga og fræðslu markvissari og áhrifaríkari og þar með að efla og bæta forvarnarstarf á sviði lýðheilsu. Bylting hefur orðið í upplýsingaflæði undanfarin ár sem hefur haft í för með sér stórvægilegar breytingar á möguleikum til að miðla upplýsingum og þekkingu. Einkum hefur færst í aukana að miðla upplýsingum í gegnum Internetið þar sem aðferðir og leiðir hafa verið í mikilli þróun.

Í erindinu verður fjallað um aðgang þátttakenda að Internetinu frá mismunandi stöðum; hversu oft þeir leita upplýsinga um heilsu og lífsstíl samanborið við leit að upplýsingum um önnur málefni, þ.e. störf, nám, áhugamál og daglegt líf; velt verður upp þáttum sem geta haft hindrandi áhrif á upplýsingaleitina; og fjallað um mat þátttakenda á eigin færni til að leita upplýsinga á Internetinu.

Rannsóknin var framkvæmd sem póstkönnun. Úrtakið var 1000 manns, 18–80 ára, á landinu öllu. Svarhlutfall var 47%. Þátttakendur voru dregnir í fjóra hópa með k-means klasagreiningu, byggt á því hversu oft þeir leituðu upplýsinga í 22 tegundum heimilda.

Hægt er að  nálgast glærur hér. Nánari upplýsingar er að finna í nýbirtri grein eftir Ágústu:

Pálsdóttir, Ágústa. (2009). Seeking information about health and lifestyle on the Internet. Information Research 14(1), paper 389. Sótt 30. apríl 2009 af http://informationr.net/ir/14-1/paper389.html