Málstofur og erindi RANNUM á Menntakviku 2021 15.10.

Stafræn námsgögn og rými til samvinnu, leikja og náms

Tengill á upptöku verður virkur á vef Menntakviku í um 3 vikur eftir flutning:
https://menntakvika.hi.is/malstofa/stafraen-namsgogn-og-rymi-til-samvinnu-leikja-og-nams/  

Kl. 10:10-11:40

Málstofustjóri: Sólveig Jakobsdóttir

Kennsluefni í forritun og stærðfræði á unglingastigi: Tilraunir um framsetningu og miðlun á vef

Brynjar Marínó Ólafsson, skólastjórnandi, Snælandsskóla og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ

Fjallað verður um þróun á kennsluvef sem ætlað er að hjálpa nemendum að dýpka skilning sinn á stærðfræði. Lýst er hvernig blandað nám getur stutt við einstaklingsmiðun í námi og gefið nemendum tækifæri til að hafa áhrif á eigin námshraða og efnisval. Rætt er um hvað þarf að hafa í huga þegar ætlunin er að nýta tölvur, forrit og upplýsingatækni til að dýpka skilning nemenda í stærðfræðinámi og skoðað hvernig nýta má upplýsingatækni við efnismiðlun og kennslu í stærðfræði. Bent er á leiðir til að nýta tölvur og forrit sem viðbót í náminu. Á kennsluvefnum er að finna dæmi um ólíkar leiðir til að fást við stærðfræði með aðstoð tækni og tölvuforrita og eru sett fram nokkur verkefni í hverjum flokki miðlunarkosta sem þar er að finna. Þeir nefnast Töflureiknir, Reiknigripplur, Forritun, GeoGebra, Rafbækur, Kennslumyndbönd, Þöglar myndir og Samvinna. Markmið með vefnum er að búa til vettvang fyrir kennara til að sjá og greina möguleika við að nýta tölvur og tækni í stærðfræðinámi og þannig hvetja þá til að vinna áfram með tæknina í stærðfræðikennslu. Efnistök og framsetning eru með því móti að nemendur geti unnið að miklu leyti sjálfstætt í efni á vefnum og stýrt því sjálfir hvar og hvenær þeir vinna í efninu eða hversu hröð yfirferð þeirra er. Kennsluvefurinn er opinn öllum og vonast er eftir að hann geti nýst kennurum og nemendum sem vilja nýta upplýsingatækni markvisst í stærðfræðinámi í efri bekkjum grunnskóla. Vefurinn ber heitið Tölvunotkun og stærðfræði og er að finna á slóðinni http://www.namsvefir.wixsite.com/stae.

 

Opnar kennslubækur, opin bókaskrif – Geta nemendur í háskólanámi skrifað eða endurblandað eigin námsbækur?

Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS HÍ

Markmið rannsóknar er að skoða hvort og á hvern hátt opið menntaefni (OER) á ýmiss konar formi geti komið í stað hefðbundinnar kennslubókar, hvort og hvernig þátttaka nemenda í að útbúa opin námsgögn í samvinnu við aðra valdefli nemendur sem og hvaða tól og búnaður til slíkra skrifa sé við hæfi nemenda. Lýst er starfendarannsókn á hvernig opið kennsluefni (OER) og þá sérstaklega opnar kennslubækur er notað sem einn þáttur á tveimur háskólanámskeiðum 2021 sem námsgögn, til samvinnuskrifa og til að valdefla nemendur. Nemendur unnu bæði með wikikerfi (wikibooks) og útgáfukerfi ( Pressbooks) og opna hugbúnaðinn H5P til að búa til gagnvirk verkefni. Flestir nemendur náðu allgóðu valdi á verkfærum/útgáfukerfum til að skrifa opnar kennslubækur. Lokuð útgáfukerfi til bókaskrifa (Pressbooks) virtust hafa nokkra kosti fram yfir opin kerfi (Wikibooks). Nemendur náðu færni í að skrifa námsefniskafla í Pressbooks og gera gagnvirkar æfingar í H5P en vegna takmarkana á uppsetningu gátu þeir ekki tengt slíkt saman. Nemendur nýttu lítið möguleika til að endurblanda texta frá öðrum en nýttu myndir og ýmiss konar innfellt efni í sín verk.

 

Stafræn sköpunarsmiðja í Minecraft: Notkun sýndarveruleika í skólastarfi 

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Gísli Þorsteinsson, prófessor, MVS HÍ
Glærur:

Rannsóknin fjallaði um notkun Minecrafts sem sýndarveruleikanámsumhverfis í grunnskóla. Þátttakendur voru sjö ára grunnskólanemendur í Stykkishólmi ásamt kennara þeirra. Gögnum var safnað í formi myndskeiða og upptökum af viðtölum við nemendur og kennara þeirra og fylgst var með kennslunni. Grunduð kenning var notuð við úrvinnslu gagnanna. Kennsluáætlun og athafnamöguleikar nemendanna innan sýndarheimsins sköpuðu skilyrði fyrir markbærum námsferlum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á samhengi náms og kennslu með því að skoða hugmyndaauðgi nemendanna og getu þeirra til að birta hugmyndir sínar í heiminum í samræmi við athafnakosti hugbúnaðarins. Nám nemendanna fór fram í gegnum leik sem hjálpaði þeim að nýta reynsluheim sinn við birtingu hugmynda sinna. Myndskeið sýndu hvernig margbreytileg samskipti nemenda studdu við hönnunarvinnu þeirra og efldu félagsfærni þeirra. Að geta byggt með sýndarefni gaf þeim einnig möguleika að prófa hugmyndir sínar við birtingu þeirra í heiminum. Nemendur studdu við vinnu hver annars í námsferlinu og kennarinn var oftast í hlutverki stuðningsaðila. Verkefnið er framlag til rannsókna á námi er byggir á leik og fer fram í sýndarveruleikanámsumhverfi.

 

Framtíð náms: Ný tækni og tækifæri

Tengill á upptöku verður virkur á vef Menntakviku í um 3 vikur eftir flutning:
https://menntakvika.hi.is/malstofa/framtid-nams-%e2%94%80-ny-taekni-taekifaeri-og-askoranir/

Kl. 12:00-13:30

Málstofustjóri: Tryggvi B. Thayer

Frumkvöðlamennt: Teikn og stefnur eftir COVID-19

Tryggvi B. Thayer, kennsluþróunarstjóri, MVS HÍ
Glærur: DigiFirefly-Menntakvika

Vegna samkomutakmarkana í COVID-19 faraldrinum þurftu kennarar um alla Evrópu skyndilega að taka upp nýja kennsluhætti í lítt kunnugu stafrænu kennsluumhverfi. Þótt áskoranirnar væru töluverðar fyrir alla kennara, reyndi sérstaklega á kennslu sem byggir á verklegu og reynslumiðuðu námi, þar á meðal frumkvöðlamennt (e. entrepreneurial education). Var í mörgum tilvikum dregið verulega úr frumkvöðlamennt þrátt fyrir umtalsverðar framfarir síðustu áratuga í innleiðingu hennar í skólastarf. Digital Firefly er Erasmus+ verkefni sem er ætlað að varpa ljósi á stöðu frumkvöðlamenntar í framhaldsnámi og iðn-/starfsnámi í kjölfar COVID-19 faraldursins og hjálpa kennurum að aðlagast nýjum aðstæðum. Í erindinu verða kynntar niðurstöður úr fyrsta hluta verkefnisins sem lýtur að því að kanna hvernig kennarar sem kenna frumkvöðlamennt brugðust við samkomutakmörkunum vegna COVID-19 faraldursins. Kynnt verður heimildarýni sem varpar ljósi á þróun frumkvöðlamenntar og hvernig upplýsingatækni hefur verið nýtt til að styðja við hana og móta í takt við breytilegar aðstæður. Einnig verður fjallað um nýjustu rannsóknir um reynslu af frumkvöðlamennt í COVID-19 og helstu viðfangsefni fræðasamfélags í ljósi þeirra.

 

Netkennsla og stafræn tækni í grunnskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sýn kennara

Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS HÍ; Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ
Glærur: VeiruRannsokntaka2

Menntavísindastofnun HÍ stóð fyrir viðamikilli könnun vorið 2020 meðal starfsfólks í skólum til að skoða áhrif COVID-19 faraldursins á menntun og skólastarf. Hér er fjallað um niðurstöður sem tengjast stafrænni tækni og netnámi og byggja á svörum 1550 starfsmanna sem kenndu á unglingastigi (372), miðstigi (325), yngsta stigi (466) eða á fleiri en einu stigi (387). Í ljós kom að meirihluti svarenda taldi skólana vel búna stafrænum verkfærum og starfsliðið vel undir það búið að takast á við aukin tölvusamskipti, blandaða kennslu og netkennslu þó að margir væru þeirrar skoðunar, ekki síst í hópi kennara á yngri stigum, að efla þyrfti búnað og kunnáttu. Þá taldi þorri kennara á unglingastigi að aðgengi nemenda að tækni heima dygði vel til samskipta og netnáms í faraldrinum en á yngri stigum gætti skýrt þeirra sjónarmiða að aðgengi að búnaði hefði skort á mörgum heimilum. Niðurstöður endurspegla miklar breytingar á kennsluháttum og nýtingu stafrænnar tækni meðan á faraldrinum stóð. Mikil aukning varð á blönduðu námi og netnámi á unglingastigi, töluverð á miðstigi og merkjanlegar breytingar allt niður á yngsta stig. Þá hafði faraldurinn bæði letjandi og hvetjandi áhrif á skapandi starf með hjálp stafrænnar tækni. Meirihluti svarenda taldi að COVID-faraldurinn myndi breyta kennsluháttum í skólum þeirra til frambúðar. Mikilvægt þótti að búa kennara undir aukna netkennslu og umtalsverður áhugi er á að sækja einingabært nám um hagnýtar leiðir í notkun tækni í námi og kennslu. Aðstæður kennara, kunnátta og færni eru með ýmsu móti og efla þarf greiningu á stöðu stafrænnar tækni í grunnskólum.

 

Stafræn hæfni: Gagnsemi sjálfsmatsverkfæra og leiðarlykla í skólaþróun

Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ; Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri/kennsluráðgjafi í upplýsingatækni við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Glærur: Menntakvika-2021_stafræn-hæfni_SJ_SP_ÞÞ

Stafræn tækni skiptir sífellt meira máli í skólaþróun þar sem hún getur auðgað menntun og veitt nemendum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Mikilvægt er fyrir skóla að meta stöðu sína varðandi stafræna hæfni út frá alþjóðlegum viðmiðum. Á undanförnum misserum hafa aðilar frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviði Háskóla Íslands tekið höndum saman um að þýða og prófa evrópska sjálfsmatsverkfærið SELFIE sem er leiðarlykill í skólaþróun á sviði upplýsingatækni. Skólar geta skráð sig á vef Evrópusambandsins (https://ec.europa.eu/education/schools-go-digital_en) og lagt fyrir endurteknar kannanir meðal stjórnenda, kennara og nemenda um stöðu varðandi stjórnun, tæknilega innviði, starfsþróun, stafræna hæfni og nýtingu stafrænnar tækni í námi og kennslu. Þátttakendur geta valið um fjölmörg tungumál og kerfið býr sjálfkrafa til skýrslur þegar könnunum er lokið. Fyrsta útgáfa af íslensku þýðingunni var sett inn á SELFIE-vefinn og prófuð í desember í tveimur grunnskólum. Á haustmisseri 2020 hélt þróunarvinnan áfram. Verkfærið var prófað í nokkrum skólum. Vorið 2021 var unnið að grunnþýðingu á umhverfi gagnagrunnsins og var fyrsta þýðing sett inn í maí. Jafnframt hefur verið unnið að því að endurbæta þýðingar á spurningalistunum. Verkfærið var nýtt á höfuðborgarsvæðinu í fjölmörgum grunnskólum vorið 2021 og hefur það verið talið gagnlegt í viðkomandi skólum til að meta stöðu stafrænnar hæfni í skólunum. Í erindinu verður fjallað um þetta þróunarverkefni og hvernig það getur stutt skóla í skólaþróun þar sem stafræn tækni kemur við sögu.

 

Stafræn borgaravitund

Tengill á upptöku verður virkur á vef Menntakviku í um 3 vikur eftir flutning:
https://menntakvika.hi.is/malstofa/stafraen-borgaravitund/

Kl. 13:40-15:10

Málstofustjóri Sólveig Jakobsdóttir

Nýjustu rannsóknir SAFT í stafrænni borgaravitund

Arnar Ævarsson framkvæmdastjóri, Heimili og skóla (SAFT), Sigurður Sigurðsson, verkefnastjóri, Heimili og skóla (SAFT)

Á undanförnum mánuðum hefur SAFT ásamt ýmsum samstarfsaðilum framkvæmt rannsóknir á ýmsum þáttum er varða stafræna borgarvitund hjá foreldrum og börnum. Kannanir hafa verið lagðar fyrir foreldra og börn með það að markmiði að fá dýpri yfirsýn yfir stöðuna þ.e. hvar liggja tækifærin og hvar liggur raunverulega þörfin er kemur að fræðslu fyrir bæði foreldra og börn um stafræna borgarvitund, hvernig við getum eflt foreldra í sínu hlutverki, hvaða verkfæri þurfa þau og vilja fá samkvæmt niðurstöðunum, hvaða fræðsla er æskilegt að börn fái samkvæmt niðurstöðum og hvað segja þau í raun og veru er varðar ósk um fræðslu? Þessu tengt þá er markmiðið að niðurstöður þessara rannsókna leiði af sér markvissari og ígrundaðri nálgun við gerð fræðsluefnis og skipulag fyrir foreldra og börn. Að leitast verði við að sú vinna fari fram í samvinnu við fagfólk t.d. kennara og aðra þá sem koma að málaflokknum stafrænni borgarvitund.

 

Netbær: Ný námsbók fyrir miðstig um stafræna borgaravitund

Sigurður Sigurðsson, verkefnastjóri, Heimili og skóla (SAFT)

Í þessu erindi verður ný námsbók kynnt sem sérfræðingar Evrópuráðsins hönnuðu í samstarfi við unglinga á aldrinum 12–16 ára, meðal annars frá Íslandi. Árið 2019 komu unglingarnir saman í Aþenu, Grikklandi til að vinna að efni til að efla stafræna borgaravitund ungmenna. Ungmennin réðu á hvaða formi fræðsluefnið yrði en þau völdu að búa til verkefnabók fyrir börn á aldrinum 9–12 ára. Útlit bókarinnar og öll verkefni í bókinni voru hönnuð af unglingunum undir handleiðslu sérfræðinga sem byggðu kaflaskiptingu bókarinnar á ramma Evrópuráðsins um starfræna borgaravitund.

Bókin fjallar um heimsókn nemenda til Netbæjar þar sem þau fræðast um stafræna borgaravitund með því að vinna verkefni, leysa þrautir og læra af aðstæðum sem sögupersónur glíma við. Bókin kom út á ensku í fyrra en nú hefur hún verið þýdd yfir á íslensku og kemur út á næstu mánuðum hér á landi.

 

Stafræn borgaravitund: Íslenskað námsefni frá Common Sense Education

Sæmundur Helgason, upplýsinga- og tölvukennari, Grunnskóla Hornafjarðar og Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ
Glærur: SaemundurHelgason-Kynning MEd verkefni

Erindið er um starfendarannsókn þar sem nýlegt námsefni frá Common Sense Education (CSE) var þýtt á íslensku og prófað með nemendum (10 stúlkum og 11 drengjum) í 6. bekk í landsbyggðarskóla. Skoðað var hvort námsefni CSE henti íslenskum nemendum til að efla stafræna borgaravitund þeirra og hjálpa þeim að verða betri netborgarar. Námsefnið samanstendur af kennslustundum þar sem nemendur fá tækifæri að taka þátt í umræðu og fjölbreyttri verkefnavinnu sem tengist eigin upplifun á notkun netsins í daglegu lífi, í skóla og heima fyrir. Hugtakið stafræn borgaravitund (e. digital citizenship) er leiðarstef í verkefninu og hvernig efla má vitund nemenda um jákvæð samskipti á netinu og síaukna netnotkun í samtímanum. Í erindinu er fjallað um reynslu kennara og nemenda af efninu. Nemendur tóku þátt í forkönnun, sex kennslustundum frá CSE og lokakönnun og einnig var tekið eitt viðtal við fjóra nemendur. Niðurstöður benda til þess að námsefni Common Sense Education geti eflt stafræna borgaravitund nemenda. Rannsóknin sýndi að námsefnið hentaði til að stýra umræðu um helstu hugtök og þætti sem tengjast stafrænni borgaravitund. Það skiptir miklu máli fyrir alla nemendur að allt námsefnið sé á íslensku, en fjögur stutt myndbönd voru á ensku og ekki þýdd. Námsefni Common Sense Education hentar prýðilega til þess að hjálpa nemendum betur að temja sér heilbrigða umgengni um netið og notkun stafrænna miðla. Til þess að námsefnið nái til allra nemenda verður þó að kosta til framleiðslu og staðfæringar á efninu á íslensku. Vanda verður til þýðingar á öllu efninu á íslensku.