Árlegt þing Menntavísindasviðs var haldið 3.október.Dagskrá er að finna á http://vefsetur.hi.is/menntakvika/

RANNUM málstofur voru í stofu K205, útsending af RANNUM málstofum á https://c.deic.dk/ut

Hér er vísað í upptökur og glærur

Þrjár málstofur voruí boði á vegum RANNUM Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun.

Málstofa 1: Spjaldtölvur og stafræn rými I

Rannsóknarstofa: RANNUM (Rannsóknastofa í upplýsingatækni og miðlun)
kl. 9:45-11:15

 Upptaka (ath. hljóð vantar á fystu kynningu/Hönnu Rún, fyrstu glærum kemur svo inn)

Hanna Rún Eiríksdóttir, hannarune@gmail.com , sérkennari
Titill erindis:  Spjaldtölvur í sérkennslu

Hanna Rún glærur

Ágrip:

Spjaldtölvur hafa í auknum mæli verið teknar í notkun í kennslu nemenda með fötlun. Enn frekari innleiðing spjaldtölvunnar er fyrirhuguð í sérdeildir og sérskóla í Reykjavík.  Fjallað verður um notkun spjaldtölva í sérkennslu.  Skoðaðir verða möguleikar á notkun mismunandi smáforrita til aðstoðar nemendum með þroskahömlun. Sýnd verða myndbönd og gögn sem safnað hefur verið í tengslum við notkun á spjaldtölvu í kennslu. Rýnt verður sérstaklega í hvernig spjaldtölvan getur haft áhrif á líf nemenda með fötlun. Spjaldtölvan verður skoðuð sem tjáskiptatæki og einnig sem þjálfunartæki fyrir ýmsa námsþætti. Fjallað verður um gagnsemi samfélagsmiðla í tengslum við spjaldtölvur og hvernig hægt er styðja við og  byggja samfélag þeirra sem eru að nota spjaldtölvu í kennslu víðsvegar um landið.

 

Anna María K. Þorkelsdóttir, kennari  Anna.Maria.Thorkelsdottir@reykjavik.is

Titill erindis:  Gagnvirkt námsumhverfi í Hólabrekkuskóla
Anna María glærur

Ágrip:

Í unglingadeild Hólabrekkuskóla er notast við gagnvirka námsumhverfið Moodle í kennslu með snjalltækjum. Á þennan hátt er allt námsefni aðgengilegt í hvaða tæki sem er og hentar því sérstaklega vel þegar verið er að skoða BYOD (Bring Your Own Device) fyrir skólana eða notkun á hvaða nettengdu tæki sem er. Einnig er það frábært tæki til að brjóta niður veggi skólastofunnar og færa kennsluna út, þannig að nemendur læra hvar og hvenær sem þeim hentar. Moodle er þannig uppbyggt að það auðveldar allt skipulag og gefur færi á að nemendur vinni eins hratt eða hægt og þeim hentar. Í skólanum er stefnan að setja allt efni og skipulag á vefinn og þannig er frelsi nemandans tryggt, en auðvitað innan vissra marka. Skólinn byrjaði að nota vefinn eingöngu fyrir heimaverkefni til að auðvelda vinnu kennara, gefa nemendum færi á þjálfun á eigin forsendum og til að auðvelda utanumhald náms og kennslu. Eftir að nemendur fengu spjaldtölvur í hendur, hefur efni á vefsíðum áfanga skólans margfaldast og áfram verður unnið að efla síðuna. Moodle býður upp á að hægt sé að deila efni  á auðveldan hátt, sé áhugi fyrir slíku. Áfangar geta þó verið eins opnir eða lokaðir og kennarar óska og engin krafa gerð um að deila efni síðnanna. Eitthvað smá af efni er tilbúið til deilingar nú þegar.

 

Sigurður Haukur Gíslason sighaukur@gmail.com

Titill erindis:  Vendikennsla og notkun Moodle í náttúrufræði í grunnskóla.
Glærur Sigurðar

Ágrip:

Í þessu erindi verður fjallað um þróunarverkefni í vendikennslu (Flipped classroom) í  unglingadeild Snælandsskóla veturinn 2013 – 2014 sem var fyrsti veturinn af þremur í innleiðingunni. Sagt er frá því hvernig kennarar notuðu Moodle til að halda utan um námsefni nemenda. Nemendur komast með sín tæki á þráðlaust net sem skólinn býður upp á. Einnig eru gamlar fartölvur nýttar fyrir nemendur. Sagt er frá því hvernig kennarar taka upp sitt eigið námsefni og hvernig þeir nýta námsefni frá öðrum. Snælandsskóli er Grænfánaskóli og þetta þróunarverkefni samrýmist Grænfánamarkmiðum einstaklega vel svo og sýnilegum markmiðum og styrkir tengsl heimili og skóla. Einnig fjallað um samspils Moodle og Mentors.

Salvör Gissurardóttir

Titill erindis:  Mót á stafrænum rýmum: Raunveruleg framleiðsla, virkni  og tengsl við nám og kennslu

Ágrip:

Á síðustu árum hafa sprottið upp nýjar gerðir af  starfssamfélögum og námsrýmum sem eru stafrænar smiðjum með opin markmið  – rými þar sem einstaklingar og hópar geta hannað, mótað og framleitt hluti með aðstoð stafrænnar tækni.  Slík rými byggja á og eru undirbúningur undir persónumiðaða framleiðslu sem er andstæða við og öðruvísi en  fjöldaframleiðsla iðnaðarsamfélaga og byggja  oft  á tækjum eins og þrívíddarprenturum og laserskerum og ýmsum opnum vélbúnaði og opnum hugbúnaði.  Eitt slíkt rými er Fablab og á vormisseri 2014 opnaði fyrsta Fablab smiðjan í Reykjavík. Nemendur á einu námskeiði á Menntavísindasviði, Nám og kennsla á Netinu tengdu vinnu sína á námskeiðinu við Fablab smiðjur og unnu að smíði þar, skoðuðu hvers konar starfsemi fer fram og getur farið fram í slíku rými og á hvern hátt slík rými og hugsunarháttur um stafræna framleiðslu gæti tengst skólastarfi – starfi þar  sem  nemendur smíða  afurð og vinni með viðföng í rými sem gefa kost á að þeir hanni einir eða með öðrum í tvívídd og þrívídd hluti eða virkni til endurgerðrar  – annað hvort til að prenta út í þrívíddarprenturum/laserskerum eða sem tæki eða hlut í stafrænni samvirkni.

 

Málstofa 2: Spjaldtölvur og stafræn rými II

Rannsóknarstofa: RANNUM (Rannsóknastofa í upplýsingatækni og miðlun)

Kl. 11:30-13:00

Upptaka

Skúlína Kjartansdóttir (shk10@hi.is) doktorsnemi og Sólveig Jakobsdóttir (soljak@hi.is) dósent
Titill erindis:  Spjaldtölvur í Norðlingaskóla: Lokamat á þróunarverkefni

Ágrip:

Í erindinu verður kynnt lokamat á samstarfsverkefni Norðlingaskóla, Menntavísindasviðs HÍ og fleiri aðila um notkun spjaldtölva á unglingastigi frá 2012 til 2013. Verkefnið er í takti við mörg önnur þróunarverkefni í skólum erlendis sem byggja á 1:1 kennslufræði (1:1 pedagogy, 1:1 learning) þar sem nemendur fá persónuleg stafræn verkfæri  (s.s. smátölvur, spjaldtölvur) til að nota í námi.  Gögnum var safnað með viðtölum, könnunum , vettvangsathugunum og skjalagreiningu. Kennarar gerðu tilraun með ýmiss konar námskerfi (d. Nearpod, Educreations, Edmodo, iTunes U).  Nemendur nýttu námsefni og smáforrit á netinu.  Kennarar komu efni fyrir á eigin vefjum og bjuggu til rafbækur.  Nemendur áformuðu og gerðu verkefni. Spjaldtölvuvæðingin lagði grunn að auknu aðgengi að námsefni og námstólum, samskiptum og samstarfi, ásamt fjölbreyttni í úrvinnslu viðfangsefna í námi. Lokamatið gaf til kynna almenna ánægju, nemenda, foreldra og kennara með verkefnið. Foreldrar voru hlynntir spjaldtölvunotkun og fannst að skólinn ætti að fjárfesta áfram í nýrri tækni til náms. Í matsskýrslu eru ábendingar lagðar fram varðandi framhald verkefnisins og annarra af sama toga.  Mikill áhugi er fyrir samstarfi skóla sem eru að innleiða spjaldtölvur. Nýleg könnun leiðir í ljós að margir skólar hafa fest kaup á spjaldtölvum eða eru að vinna í þeim málum hér á landi.

 

Guðmundur Ásgeirsson (gua15@hi.is), meistaranemi/kennari
Titill erindis:  „Eins og að fara aftur í tímann“: Viðhorf framhaldsskólanemenda sem nýttu mikið spjaldtölvur í námi sínu í grunnskóla
Glærur Guðmundar

Ágrip:

Í erindinu verða kynntar niðurstöður meistaraprófsverkefnis um viðhorf framhaldsskólanemenda sem nýttu mikið spjaldtölvur í námi sínu í grunnskóla. Í febrúar 2012 hóf Norðlingaskóli að nota spjaldtölvur sem aðalnámstæki. Voru nemendur 9. bekkjar skólans þeir fyrstu sem tóku þátt í þróunarverkefninu. Haustið 2013 hóf þessi árgangur göngu sína í framhaldsskólum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort og þá hvernig sú reynsla sem nemendur höfðu fengið í spjaldtölvunotkun nýttist þegar í framhaldsskólana var komið.  Tekin vor viðtöl við 11 nemendur (38% árgangsins). Öll voru mjög jákvæð. Þau töldu að verkefnið í Norðlingaskóla með spjaldtölvur sem aðalnámstæki hefði styrkt þau í námi, þau hefðu orðið sjálfstæðari og sjálfstraust þeirra aukist. Öllum gekk vel í Norðlingaskóla en þeim þótti námið í framhaldsskólunum erfiðara. Samt sem áður gekk þeim ágætlega þar líka. Framhaldsskólarnir þóttu formfastir þar sem eitt gengi yfir alla á meðan í Norðlingaskóla var um einstaklingsmiðað nám að ræða. Þeim þótti námið í framhaldsskólanum gamaldags og þurrt og það að fara í framhaldsskóla væri eins og að fara aftur í tímann. Söknuðu viðmælendurnir áhrifanna sem þau höfðu á nám sitt í Norðlingaskóla, frelsisins sem þau höfðu og síðast en ekki síst spjaldtölvanna. Greina mátti að

 

Kristín Jónsdóttir, kjons@hi.is, lektor

Titill erindis:  Spjaldtölvur og þátttaka í þriggja landa samstarfi
Glærur Kristínar

Ágrip:

Nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla tók iPad spjaldtölvum fagnandi þegar þær voru kynntir til sögunnar fyrir tveimur árum í grunnskóla í sjávarþorpi á Vestfjörðum. Síðan þá hefur verið unnið að því að fella notkun þeirra að kennslu í skólanum og tengja notkun þeirra margvíslegum viðfangsefnum í ljósi nýrrar aðalnámskrár og áherslna í námskrá skólans. Eitt skref í innleiðingunni var að koma á samstarfi við tvo skóla, annan í Svíþjóð og hinn í Eistlandi, í svokölluðu ISE-verkefni en það er styrkt til tveggja ára af Nordplus. Meginmarkmið verkefnisins er að þróa nám og kennslu þar sem spjaldtölvur eru nýttar ásamt annarri upplýsingatækni í viðfangsefnum sem tengjast umhverfi nemenda, menningu og náttúru. Annað markmið er að skapa kennurum tækifæri til að deila reynslu sinni og að læra hver af öðrum í samstarfi við nemendur. Í október 2013 var fyrsta skólaheimsóknin þegar gestir komu til Íslands, kennarar skólanna hittust á vinnufundi í Kaupmannahöfn í febrúar 2014 og svo fóru nemendur og kennarar frá Stokkhólmi og Vestfjörðum í heimsókn til Eistlendinga í maí síðastliðnum. Í erindinu verður fjallað um þátttöku í ISE-verkefninu og hvað það hefur lagt til þróunar í notkun spjaldtölva í íslenska skólanum. Niðurstöður byggja á viðtölum við kennara og athugun rannsakanda sem er þátttakandi í ISE og kennsluráðgjafi við skólann.

 

Sigríður Stella Guðbrandsdóttir, meistaranemi/kennari,  sirrystar@gmail.com

Titill erindis:  „Mér finnst þetta bara alger snilld. Allt!“  Tilviksrannsókn á innleiðingu spjaldtölva á miðstigi

Ágrip:

Nýting stafrænnar tækni í grunnskólum er að aukast og fleiri kennarar og skólastjórnendur opnir fyrir notkun spjaldtölva í skólastarfi. Aðaltilgangur þessa meistaraprófsverkefn er að varpa ljósi á þátt umsjónarkennara í innleiðingarferli á breyttum kennsluháttum í grunnskóla. Í skólanum  var byggt á 1:1 kennslufræði þar sem 18 nemendur fengu spjaldtölvur til eigin nota í námsfögum hjá umsjónarkennara.  Gagnaöflun fór fram veturinn 2013-2014 og byggir á vettvangsathugunum, viðtölum og könnunum. Nemendur voru fljótir að tileinka sér breytta kennsluhætti og foreldrar almennt mjög ánægðir með framtakið. Umsjónakennari hópsins þurfti að leggja á sig aukna vinnu í upphafi verkefnisins  en álagið varð minna þegar á leið. Hann upplifði meira frelsi varðandi efnistök og yfirferð verkefna. Námsmat varð gagnvirkara og auðveldara að halda utan um verkefni fyrir hann og nemendurna. Verkefnið hafði í för með sér einstaklingsmiðaðri kennsluhætti. Nemendur höfðu val á milli verkefna og réðu skilaforminu. Skapandi lausnaleit var höfð í fyrirrúmi. Kennarinn hafði mikla trú á verkefninu og sá fram á að nýta sér spjaldtölvur meira í starfi en upplifði sig þó nokkuð einan og hefði viljað vera í meira samstarfi við samkennara sína. Mikilvægt er að hlúa að þeim er sinna þróunarverkefnum og skapa umhverfi þar sem minni hætta er á einangrun í starfi.

 

Málstofa 3: RANNUM:  Starfsþróun kennara í upplýsingatækni

Rannsóknarstofa: RANNUM (Rannsóknastofa í upplýsingatækni og miðlun)

Kl. 13:45-15:15

 Upptaka

Sólveig Jakobsdóttir, dósent, soljak@hi.is  og Salvör Gissurardóttir lektor, salvor@hi.is
Titill erindis:  Opin netnámskeið (MOOC) í háskólakennslu: Trufl eða tækifæri?
Glærur Sólveigar og Salvarar

Ágrip:

Á síðustu árum hefur orðið mikil þróun í framboði á opnum og ókeypis netnámskeiðum (MOOC) á háskólastiginu sem draga að sér stóra hópa nemenda, jafnvel í tugþúsundatali.  Háskólar um allan heim hafa brugðist við og á það einnig við um Háskóla Íslands en starfshópur á vegum rektors skilaði skýrslu um þróunina og lagði fram tillögur vorið 2013. Í kjölfarið var ákveðið að gera tilraunir með að flétta þátttöku í opnum netnámskeiðum inn í nokkur námskeið innan háskólans hjá áhugasömum kennurum. Í erindinu gerum grein fyrir reynslu  okkar af nýtingu MOOC í tveimur námskeiðum á Menntavísindasviði, Fjarnámi og –kennslu og Námi og kennslu á netinu. Nemendur voru 17 á fyrrnefnda námskeiðinu og 19 á því síðarnefnda og voru ýmist starfandi kennarar eða kennaranemar. Þeir voru áhugasamir um verkefnið og töldu flestir að þeir hefðu haft heilmikið gagn af viðkomandi námskeiðum en bentu jafnframt á ýmsa galla. Til að mynda væru sum námskeið (xMOOC) sem byggðust of mikið á einstefnumiðlun og að prófa einföld þekkingaratriði á meðan önnur gátu verið mjög ruglingsleg, sérstaklega í upphafi, þegar reynt væri að byggja á tengistefnu (cMOOC). Margir nemendur höfðu þó áhuga á að nýta sér reynsluna og þróa jafnvel opin netnámskeið eða opið menntaefni  í tengslum við eigin námsgreinar.  Nemendur sáu mikla möguleika varðandi starfsþróun. Rætt verður um niðurstöðurnar og þróunin skoðuð meðal annars með tilliti til gæðaviðmiða og mismunandi gerða af MOOC námskeiðum sem má segja að sé að valda ákveðinni truflun á starfsemi háskóla en sem jafnframt veiti þeim ákveðin tækifæri. Ræddir  verða möguleikar á að setja á fót UT-MOOC sem nýttist bæði kennaranemum og starfandi kennurum.

 

Bjarndís Fjóla Jónsdóttir: upplýsingatæknikennari og verkefnisstjóri UT-torgs, bjarjons@gmail.com

Þorbjörg Guðmundsdóttir: grunnskólakennari og meistaranemi í Upplýsingatækni og miðlun, obbagumm@gmail.com

Titill erindis:  UT-torg uppbygging – Menntabúðir
Glærur Bjarndísar og Þorbjargar

Ágrip:

Upplýsingatæknitorg er starfssamfélag þeirra sem nýta UT í námi og kennslu. Meginmarkmiðin eru að styðja við UT í námi og kennslu, að stuðla að símenntun inna UT, að miðla upplýsingum um tækni og skólaþróun, að styrkja tengsl milli skólasamfélags og fræðasamfélags háskólanna. Vefur torgsins http://uttorg.menntamidja.is er virkur og þar er að finna hagnýtar upplýsingar um UT í námi og kennslu einnig er torgið með síðu á Facebook.  Í erindinu verður fjallað um starfsemi torgsins á fyrsta starfsárinu og verður sjónum sérstaklega beint að menntabúðum sem torgið og samstarfsaðilar hafa staðið fyrir. Menntabúðir “EduCamp” er samkoma þar sem fólk kemur saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Hugmyndin fer að þróast út frá hugmyndafræði sem kallast “over the shoulder learning” en hugtakið sjálft segir nokkurn veginn það sem hugmyndafræðin gengur út á. Jafningjafræðslan og tengslamyndun þeirra sem taka þátt í menntabúðum er líka mjög veigamikil.

 

Tryggvi Thayer, tbt@hi.is, verkefnisstjóri MenntaMiðju

Titill erindis:  #menntaspjall: Áhrifaþættir í þróun samræðna á samfélagsmiðlinum Twitter

Ágrip:

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður rannsóknar á skipulögðum umræðum skólafólks sem fram fara á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall sem stýrt er af MenntaMiðju og samstarfsaðilum. Í rannsókninni eru Twitter skilaboð sem fara á milli þátttakenda í skipulögðum samræðum notuð til að greina uppslýsingaflæði og áhrif þátttakenda á þróun samræðna. Notaðara eru eigindlegar og netafræðilegar aðferðir til að draga fram þá samræðuhætti tiltekinna þátttakenda sem hafa mest áhrif á jákvæða þróun umræðu. Gagnsemi rannsóknarinnar felst í því að niðurstöðurnar gefa til kynna hvernig stjórnendur umræðu á samfélagsmiðlum geta stýrt þeim markvisst til að auka þátttöku og gildi umræðu fyrir sem flesta. Í byrjun árs 2014 hóf MenntaMiðja ásamt samstarfsaðilum að skipuleggja umræður um menntamál á örbloggvefnum Twitter. Umræður fara fram á tveggja vikna fresti undir umræðumerkinu #menntaspjall. Markmið verkefnisins er að ýta undir notkun samfélagsmiðla til að miðla þekkingu á milli skólafólks og þannig styðja við símenntunar þarfir þeirra. Twitter er gagnlegur miðill í því tilliti sem auðveldar notendum að mynda öflugt samfélag á netinu þar sem þátttakendur deila nýrri þekkingu og upplýsingum með skjótum hætti. Umrætt verkefni er liður í því að ýta undir notkun samfélagsmiðla til að stuðla að samstarfi og miðlun upplýsinga meðal skólafólks, sem er eitt af meginmarkmiðum MenntaMiðju.

 

Elínborg Siggeirsdóttir, elinborgS@kopavogur.is
Umsjónarmaður Upplýsingavers Hörðuvallaskóla, formaður 3f – Félag um upplýsingatækni og menntun

Titill erindis:  UT-leiðtogar í grunnskólum – Stefna stjórnvalda – Ný aðalnámskrá í upplýsinga- og tæknimennt (UT)

Ágrip:

Í stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið „Netríkið Ísland“ 2008-2012 eru UT-leiðtogar í skólum fyrst kynntir. Þar er meðal helstu aðgerða til framþróunar í upplýsingasamfélaginu nefndur stuðningur við UT-leiðtoga í grunn- og framhaldsskólum til að efla notkun upplýsingatækni í nám og kennslu í skólunum. 3f – félag um upplýsingatækni í menntun hefur lagt sig fram við að styðja UT-leiðtoga og kennara til að efla verklag og færni í upplýsingatækni á fjölbreyttan hátt; með upplýsingaveitu á heimasíðu 3f, öflugu tengslaneti og upplýsingaflæði á samskiptamiðlum,  endurmenntunarnámskeiðum og fræðslufundum. Margir öflugir UT-leiðtogar eru nú þegar að störfum í grunnskólunum og reynir 3f að fá þá til að miðla reynslu sinni meðal félagsmanna.  Í erindinu verður fjallað um margþætt hlutverk UT-leiðtogans og sagt frá störfum öflugra UT leiðtoga sem eru við störf í grunnskólum á Íslandi.