Hér er birt yfirlit yfir styrkt verkefni úr Kennslumálasjóði Háskóla Íslands sem RANNUM hefur komið að

Uppbygging og þróun starfssamfélaga við Háskóla Íslands – undirbúningur fyrir stofnun Menntamiðju

Árið 2012 fékkst styrkur til að bjóða Etienne og Beverley Wenger-Trayner til landsins. Þetta var liður í undirbúningi fyrir stofnun Menntamiðju. Héldu þau erindi á ráðstefnu í Hátíðarsal HÍ og vinnustofu í framhaldinu en einnig tveggja daga vinnustofu fyrir leiðtoga.

Skýrsla vegna styrks 2012

Hönnunarsmiðja um framtíð tækni og menntunar

 Markmið verkefnisins var að kynna fyrir íslensku skólasamfélagi innan MVS og utan hönnunarnálgun (e. design thinking) sem gagnlega aðferð til efla kennslu og nýsköpun í skólastarfi; og hins vegar að nota hönnunarnálgun til að fá fram hugmyndir fjölbreytts hóps skólafólks um hvernig best verði hægt að nýta tækni í námi og kennslu í framtíðinni. Í þeim tilgangi var fengin til landsins Virajita Singh, sérfræðingur í hönnunarnálgun við hönnunardeild Háskólans í Minnesóta.

Skýrsla vegna styrks 2013

Menntabúðir

Árið 2014 og 2015 fengust styrkir í samvinnu við Menntamiðju og UTtorg í verkefnið Menntabúðir – trix, tækni og tengslanet. Meginmarkmiðið með verkefninu  var að þróa áfram kennsluaðferð sem nefnd hefur verið menntabúðir (Educamp), halda menntabúðir fyrir kennara og nemendur við Menntavísindasvið og á vettvangi, gera skýrslu um reynsluna (eða skrifa grein/ar), og halda til haga gagnlegum upplýsingum, kynningum og kennslu frá þátttakendum og gera þær aðgengilegar á netinu t.d. á UT-torgi. Um er að ræða aðferð sem hefur verið að breiðast út um allt land frá því að hugmyndir um hana voru kynntar fyrst fyrir nokkrum árum og prófaðar við Menntavísindasvið fyrir framhaldsnema í upplýsingatækni og miðlun og fyrir starfandi kennara á vegum 3f. Aðferðin byggir á jafningjafræðslu og þróun starfssamfélaga og hefur verið kölluð Educamp (Leal Fonseca, 2011) en einnig edcamp eða teachmeet á ensku. Með þessari aðferð er könnuð þekking þátttakenda á mismunandi tækni og einstaklingar í hópnum skiptast svo á að kenna hverjir öðrum.

Skýrsla vegna styrks 2014

Þróun opinna netnámskeiða (MOOC) með fræðslu um stafræna borgaravitund og leiðir til að efla hana hjá börnum og unglingum árin 2016 og 2017 og um nýsköpunarsmiðjur í menntun ungra barna 2018

Þróun námskeiða um stafræna borgaravitund voru unnin í samvinnu við breiðan hóp frá Menntavísindasviði, aðila frá Heimili og skóla/SAFT verkefninu, Reykjavíkurborg, 3f félag um upplýsingatækni í menntun og Menntamiðju.

Tveir styrkir fengust úr Kennslumálasjóði, annar árið 2016 og hinn árið 2017 (500.000 hvor). Þá fékkst til viðbótar styrkur árið 2017 frá Reykjavíkurborg (kr. 600.000) og 180.000 kr. Frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla sama ár. Auk þess hefur Heimili og skóli og Menntavísindasvið styrkt verkefnið m.a. til að halda málþing 2016 með erlendum fyrirlesara (styrkur frá MVS úr Bakhjarli).

Undirbúningsvinna var í gangi árið 2016, m.a. umrætt málþing um stafræna borgaravitund og hópur sem vann þarfagreiningu kennara og fleiri hópa um áhuga fyrir þessu málefni og fræðslu í opnum netnámskeiðum. Skrifuð var grein í mars 2017 sem nýtt var sem lesefni.

Tvö námskeið voru hönnuð og kennd, Netið mitt á vormisseri 2017 og sjálfstætt framhald Netið okkar á haustmisseri 2017.

Undirbúningur fyrir opið netnámskeið um nýsköpunarsmiðjur er hafinn og gert ráð fyrir að námskeiðið verði haldið síðari hluta 2019.

Skýrsla vegna styrks 2016

Skýrsla vegna styrks 2017