6. október 2017 – sjá dagskrá https://menntakvika.hi.is

Tvær málsstofur í boði RANNUM á Menntakviku 2017

K-204 

9:00-10:30 

RANNUM – Opið netnám, stafræn tækni og starfsþróun 

Málstofustjóri: Tryggvi Thayer

Upptaka https://c.deic.dk/p4xy09ebsk6/ 

Eru MÚKK framtíð háskólanáms?
Tryggvi Thayer, verkefnisstjóri Menntamiðju HÍ 

Glærur Tryggva

Margir hafa haldið því fram að opin netnámskeið (e. massive online open courses) séu framtíð háskólamenntunar. Í því felst að opin netnámskeið séu breytingarafl sem knýr á um nýja starfshætti í háskólanámi. Í erindinu verður fjallað um breytingaröfl með tilliti til mótunar hugmynda um mögulegar framtíðir. Sérstaklega verður leitast við að gera greinarmun á breytingaröflum og afleiðingum breytinga og hugað að því hvorum flokknum opin netnámskeið tilheyra frekar.

Netið mitt – Netið okkar: Opin netnámskeið um stafræna borgaravitund
Sólveig Jakobsdóttir, dósent, MVS, HÍ 

Glærur Sólveigar

Með stöðugu aðgengi að netinu og sívaxandi snjalltækjanotkun verður æ meiri þörf á að stuðla að aukinni „stafrænni borgaravitund“ (e. digital citizenship) nemenda, kennara og uppalenda þannig að börn og unglingar læri frá unga aldri að virða og vernda sig sjálf og aðra í stafrænum heimi. Í þessu erindi verður fjallað um tvö opin netnámskeið, Netið mitt og Netið okkar, sem miða að því að efla stafræna borgaravitund. Þetta er samstarfsverkefni Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands (HÍ), samtakanna Heimili og skóli, Menntamiðju, Reykjavíkurborgar og 3f –- félags um upplýsingatækni og menntun. Fjárhagslegur stuðningur hefur fengist í þetta verkefni frá HÍ, Heimili og skóla, Reykjavíkurborg og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sagt verður frá undirbúningsvinnu, sem fólst meðal annars í málþingum, umræðufundum og netkönnun með þátttöku kennara á ýmsum skólastigum (N=132), og gerð grein fyrir hönnun og skipulagi námskeiðanna. Námskeiðið Netið mitt var í boði fyrir áhugasama á vormisseri 2017 og skráðu 70 manns sig á það, aðallega kennarar. Á námskeiðinu fjölluðu sérfræðingar á ýmsum sviðum um borgaravitund og lýðræði í menntun, sjálfsmynd og netorðstír, réttindi og ábyrgð og andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Rætt verður hvernig tókst til að mati þátttakenda og skipuleggjenda og hvernig staðið var að hönnun námskeiðsins Netið okkar í framhaldinu. Mikilvægt samstarf áhugasamra fagaðila af mörgum mismunandi sviðum skapaðist í þessu verkefni, sem getur gagnast vel til að efla stafræna borgaravitund ungmenna en einnig getur reynslan nýst fleirum sem hafa áhuga á að bjóða upp á eða nýta sér starfsþróun af þessum toga. 

eTwinning: starfsþróun kennara, færni nemenda og stafræn borgaravitund Guðmundur Ingi Markússon, verkefnisstjóri, Rannsóknamiðstöð Íslands 

Glærur Guðmunds

eTwinning, áætlun ESB um skólasamfélag á Netinu (hluti af evrópsku menntaáætluninni Erasmus+), er stærsta starfssamfélag kennara í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Á þeim 12 árum sem eTwinning hefur verið í gangi hafa um 500.000 kennarar og annað skólafólk tekið á einn eða annan hátt þátt í einföldum samstarfsverkefnum á Netinu, á fjarnámskeiðum, ráðstefnum eða öðrum viðburðum. Ísland hefur verið með frá upphafi. Hér á landi eru kennararnir orðnir yfir 1.200, og verkefnin sem íslenskir skólar hafa tekið þátt í yfir 700. Á vefnum er eTwinning í raun samfélagsvefur. Það sem einkennir eTwinning samanborið við aðra samfélagsmiðla, og gerir að verkum að hægt er að tala um starfssamfélag, er áherslan á kennslufræði samstarfs og starfsþróun með samstarfsverkefnum og samskiptum við jafningja. Þess utan er stuðningsskrifstofa í hverju landi sem styður þátttakendur og veitir ferðastyrki á námskeið og aðra viðburði. Í erindinu verður fjallað um nokkrar nýlegar úttektir Evrópska skólanetsins: (1) um þýðingu eTwinning fyrir starfsþróun kennara (könnun með þátttöku um 6.000 evrópskra kennara); (2) og þróun hæfni þeirra, stafrænnar og kennslufræðilegrar (úttekt byggð á sjálfsmati og jafningjamati 35 kennara frá 19 löndum; (3) um þýðingu eTwinning fyrir nemendur (viðtöl við 44 nemendur frá 11 löndum sem tóku þátt í eTwinning-verkefnum með nemendum frá yfir 34 löndum); og (4) hugmyndir og dæmi um eTwinning-verkefni sem geta eflt stafræna borgaravitund.

Opnar kennslubækur – Hagur nemenda og kennara 

Bernharð Antoníusson, verkefnisstjóri, HÍ, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, doktorsnemi, FVS, HÍ, Hákon Hákonarson, framhaldsskólakennari og Arnar Úlfarsson, rafvirki og fyrrverandi grunnskólakennari 

Glærur um opnar kennslubækur

Kostnaður nemenda vegna kennslubóka hefur hækkað. Nú er svo komið að meirihluti nemenda kaupir ekki þær kennslubækur sem kennarinn mælir með. Þetta hefur haft áhrif á námsárangur nemenda, hægt á námi þeirra og fælt þá frá námi. Á síðustu árum hafa verið farnar nokkrar leiðir til að lækka kostnað nemenda vegna menntunar og kennslubóka en þær hafa ekki skilað nægilega góðum árangri.

Það er sífellt verið að leita leiða til að snúa þessari þróun við svo að allir í heiminum eigi kost á að mennta sig óháð fjárhag. Heimurinn horfir sífellt meira til þess að opið menntaefni gæti verið lausnin á þeim vanda sem blasir við; að einungis þeir ríku geti menntað sig og keypt kennslubækur. Frá árinu 2002 hefur MIT-Massachusetts Institute of Technology lagt sitt af mörkum til aukinnar menntunar í heiminum með því að bjóða upp á ókeypis námskeið og námsefni á Internetinu og fleiri hafa fylgt í kjölfarið. Slíkt efni á Internetinu er nefnt opið menntaefni.

Í þessu erindi verður fjallað um opnar kennslubækur sem er ein tegundin af opnu menntaefni. Opnar kennslubækur eru rafrænar, í ókeypis aðgangi á Internetinu og með opnum afnotaleyfum. Hér verður reynt að lýsa því hvað opnar kennslubækur eru. Þá er rætt hvers vegna kennslubækur ættu að vera opnar, hverjir notendur þeirra eru og af hverju höfundar ættu að gefa út opnar kennslubækur. Að lokum er skoðað hvaða hindrunum kennarar standa frammi fyrir varðandi notkun á opnum kennslubókum og hvað þurfi að gera til að hvetja til notkunar þeirra og útgáfu.

 

RANNUM og RASK – Makerspaces í menntun ungra barna? Málstofustjórar: Sólveig Jakobsdóttir og Svanborg R. Jónsdóttir

Upptaka https://c.deic.dk/p7itdedrdee/

MakEY-verkefnið: Gerver og framtíðarmöguleikar
Skúlína H. Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjúnkt, MVS, HÍ

Glærur Skúlínu

Það leikur lítill vafi á því að ung börn eru að verða fastagestir í stafrænni veröld sem getur haft á þau margvísleg áhrif. Í tæknivæddri Evrópu hafa börn gott aðgengi að stafrænni tækni á heimilum sínum og víðar, en þó eru enn til takmarkaðar upplýsingar um það stafræna læsi og læsisreynslu sem börn eru að tileinka sér. Þetta er verðugt athugunarefni fyrir þá sem starfa við menntun, því hæfni á þessu sviði er verðmæt fyrir framtíð þessara barna og nauðsynleg fyrir samfélag sem vill byggja á nýsköpun og geta endurskipulagt starfsemi sína í takt við tækniþróun.

Eitt af þeim sviðum sem alþjóðlegar menntarannsóknir er lúta að tækniþróun benda á að sé vert að gefa sérstakan gaum næsta árið er þróun svokallaðra gervera (e. makerspaces) sem sprottið hafa upp á öndverðri 21. öld víða um heim. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir helstu einkennum gervera og þeirri menntunarstefnu og kennsluaðferðum sem þau beita. Fjallað verður um þær hugmyndir eða hugmyndafræði sem liggja þeim til grundvallar og hvernig þessar hugmyndir eru að þróast og mótast, m.a. við íslenskar aðstæður. Rætt verður um það hlutverk sem þau geta þjónað í menntun og hvernig reikna má með að þau tengist skólastarfi á komandi árum. Sagt verður frá stöðu MakEY-verkefnisins, sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni háskóla, skóla og menntunarfyrirtækja.

Makerspaces á Íslandi: Hver eru viðhorf kennara ungra barna og fagfólks á söfnum og í nýsköpunarsmiðjum?

Íslenski MakEY-hópurinn við HÍ: Sólveig Jakobsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Gísli Þorsteinsson, prófessor, MVS, HÍ, Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS, HÍ, Skúlína H. Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjúnkt, MVS, HÍ, Svanborg R. Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ og Torfi Hjartarson, lektor, MVS, HÍ

Glærur um könnun

Í þessu erindi er fjallað um viðhorf til (ný)sköpunarsmiðja eða gervera (e. makerspaces) meðal kennara ungra barna (0–8 ára) í leik- og grunnskólum og fagfólks á söfnum og í slíkum smiðjum. Upplýsingum var safnað með rafrænni könnun í tengslum við Evrópuverkefnið MakEY (Makerspaces in the early years: Enhancing digital literacy and creativity) sem er samstarfsverkefni fjölmargra háskóla og stofnana innan Evrópu og utan (í Bretlandi, Þýskalandi, Finnlandi, Noregi, Danmörku, Rúmeníu og á Íslandi). Nokkrar íslenskar stofnanir taka þátt í verkefninu (Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Menntaráðgjöf/Innoent). Gögnum var safnað sumarið 2017 í viðkomandi Evrópulöndum. Í erindinu verða kynntar niðurstöður úr könnuninni hjá íslensku þátttakendunum. Greint verður frá svörum varðandi: þekkingu og skilning á hugtakinu og reynslu af að nota slík rými; hvernig staðan er á vinnustöðum svarenda; gagnsemi mismunandi atriða (viðeigandi rýmis, verkfæra og búnaðar) fyrir starfsemina; þörf á starfsþróun í tengslum við nýtingu makerspaces með börnum; og tengsl starfskenningar/sýnar viðkomandi á nám og kennslu við aðferðir sem byggt er á varðandi nám í makerspaces. MakEY-verkefnið er mikilvægt í mótun menntunar á Íslandi í tæknilegu landslagi sem er í stöðugri þróun, þar sem stafrænt læsi, „germenning“ (e. makerculture) og forritunarhæfni gegna aðalhlutverki ásamt faglegri starfsþróun þeirra sem mennta börn og styðja nám þeirra. Þá leggur það einnig mikilvægan grunn að rannsóknum á þessu sviði með þessari könnun þar sem leitast er við að skoða stöðuna á byrjunarreit.

Makerspaces í grunnskólum?

Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Upplýsingatæknitorg, Kennslumiðstöð HÍ, Erla Stefánsdóttir, Margmiðlunarver SFS, Hildur Rudolfsdóttir, kennsluráðgjafi Garðaskóla, Hugrún Elísdóttir, verkefnastjóri í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari í Norðlingaskóla, Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Anna María Þorkelsdóttir, verkefnastjóri í Hólabrekkuskóla og Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í erindinu verður sagt frá verkefni sem stendur yfir og hugmyndunum sem að baki því liggja. „Maker“–hugmyndafræðin, sem verkefnið er byggt á, felur í sér að gefa nemendum tækifæri til að færast úr hlutverki neytanda yfir í að skapa og hanna með nútíma tækni, hand- og listaverki. Markmiðið er að skapa vettvang til að efla læsi nemenda í víðum skilningi og þjálfa þá í að beita upplýsingatækni. Í þessari hugmyndafræði kristallast kennslufræðilegar hugmyndir eins og lausnaleit, þrautalausnir, félagslegt nám og samstarf. Jafnframt er lögð áhersla á að nýta fjölbreytt gögn, svo sem bækur, búnað, tölvur og margvíslegan hugbúnað bæði í kennslustofum og skólabókasöfnum, sem tengist skólastarfinu á nýjan og fjölbreyttari hátt sem n.k. upplýsingamiðstöð eða upplýsingaver. Verkefnið er í þrem þáttum: 1) Námskeið þar sem kynntar verða helstu nýjungar og kennsluaðferðir „Maker“-hreyfingarinnar í fjórum mismunandi sveitafélögum. 2) Fræðslu- og upplýsingagátt fyrir kennara þar sem þeir geta sótt upplýsingar um nýtingu á tækni tengdri t.d. forritun, sýndarveruleika og skapandi verkfærum. 3) Tæknisett með tækjum og íhlutum sem ferðast munu á milli fjögurra skóla og nýtt verða á námskeiðum og í menntabúðum sem efnt verður til fyrir kennara og kennaranema. Rætt verður hvernig hugmyndafræði „Maker“-hreyfingarinnar gæti rímað við starf í íslenskum grunnskólum með áherslu á samvinnu milli námsgreina og námssviða, þar sem nemendur geta nýtt fjölbreytt tæki og gögn í ýmsu formi í námi sínu.

Uppfinningaskóli Innoent
Þórdís Sævarsdóttir, skólastjóri Innoent

Innoent – menntakvika Glærur Þórdísar

Í þessu erindi verður sagt frá þróunarstarfi Innoent-uppfinningaskólans sem er aðili að MakEY-verkefninu. Helsta áhersla Uppfinningaskóla INNOENT hefur verið á menntaþróun í gegnum skapandi kennslu, nýsköpunar- og frumkvöðlafræði. Innoent starfar eftir hugmyndafræði „eflandi kennslufræði“ og hefur það að markmiði að efla nemendur í að nýta eigið hugvit, hæfileika og styrkleika til frekara náms í samræmi við menntunargildi 21. aldar. Nemendur starfa saman í blönduðum aldurshóp (5 til 12 ára) sem gefur færi á að nýta jafningjafræðslu á skemmtilegan hátt þar sem eldri aðstoða yngri og yngri veita innblástur með leikgleði og hugmyndum. Rætt verður um hlutverk nemenda og kennara í verkefnavinnu sem er byggð á sjálfsprottnum áhuga nemenda. INNOENT leggur áherslu á heildstætt nám í anda hugmyndarinnar „hugur, hjarta, hönd“ með samþættingu í sköpun, listum, vísindum, nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Í erindinu verður fjallað um þær kröfur til kennara sem þessari nálgun fylgja, til dæmis varðandi athygli og það að fylgja „námsflæði“ nemenda eftir. Þá verður fjallað um það samræmi sem þarf að vera milli fjölda kennara og stærðar og samsetningar nemendahóps. Greint verður frá mati nemenda sjálfra og foreldra á náminu, sem hefur verið mjög jákvætt. Margir nemendur hafa lýst yfir ánægju sinni, hafa verið tvær til fimm vikur í röð á námskeiðinu og/eða komið aftur að ári liðnu. Margir foreldrar telja að námskeiðið sé einmitt það sem barnið þeirra þarf, og spyrja ítrekað um vetrarstarfið. Þessar hugmyndir um menntunaraðferð eru þess virði að vera skoðaðar með tilliti til menntaþróunar.