Hér er vísað í erindi og upptökur á málstofum RANNUM á Menntakviku 2013 27. september 2013

A. Fyrri málstofa kl. 13-14.30:
MenntaMiðja: Tengsl starfssamfélaga og rannsóknarsamfélags Upptaka af málstofu

B. Síðari málstofa kl. 15-16.30:
Spjaldtölvur og önnur fartækni í námi og kennslu Upptaka af málstofu

Nánar um málstofurnar með vísanir í glærur og önnur gögn

A. MenntaMiðja: Tengsl starfssamfélaga og rannsóknarsamfélags 

Á málstofunni var kynnt staða þekkingar um starfssamfélög og rannsóknir og frumgreiningar á gögnum um starfsemi MenntaMiðju og tengdra starfssamfélaga (eða “torga”). Sérstaklega var leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvaða þættir ýta undir farsælt samstarf innan starfssamfélaga?
  • Hvaða hagur er af því að þróunarverkefni eru unnin í samstarfi vettvangs og fræðasamfélags?

Verkefnisstjórar MenntaMiðju og einstakra torga fjölluðu um:

  • Hugmyndafræði starfssamfélaga (e. communities of practice) og kenningarlegar nálganir sem notaðir hafa verið við rannsóknir á námi, samskipti og þekkingarsköpun sem á sér stað innan þeirra.
  • Reynslu af tengslum fræða- og rannsóknarsamfélags í íslenskum háskólum við þróunarstarf á vettvangi leik- og grunnskóla.
  • Reynslu verkefnastjóra af því að virkja aðila innan starfssamfélaga
  • Samstarf og samlegðaráhrif sem hafa skapast innan og meðal starfssamfélaga.

Fjögur erindi voru á málstofunni:

1. MenntaMiðja: Sjálfstæð starfssamfélög í fjölbreyttu samstarfi

Tryggvi Thayer: Verkefnisstjóri MenntaMiðju, tbt@hi.is.  Glærur Tryggva.

Í erindinu er leitast við að auka skilning á starfssamfélögum  (e. communities of practice) með áherslu á hvernig megi stuðla að samlegðaráhrifum milli ólíkra starfssamfélaga. Fjallað er um ýmsar kenningalegar nálganir með tilliti til væntanlegra útkoma og mati á árangri starfssamfélaga. Sérstaklega er lögð áhersla á að greina sameiginlega þætti sem tryggja sjálfstæði ólíkra starfssamfélaga en stuðla um leið að víðtæku samstarfi og samlegðaráhrifum. Tekið er mið af þremur starfssamfélögum sem tengjast MenntaMiðju: Tungumálatorg, Náttúrutorg og Sérkennslutorg, en hlutverk MenntaMiðju er að styðja við þessi og önnur starfssamfélög skólafólks og stuðla að tengslum við fræðasamfélag háskólanna.

2. Tungumálatorgið – fræðin og veruleiki á vettvangi

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir: kennsluráðgjafi og verkefnastjóri Tungumálatorgsins, tobba@hi.is.
Glærur Þorbjargar

Í erindinu er gerð grein fyrir starfi verkefnisstjóra Tungumálatorgsins sem skiptist til helminga á milli Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og sérfræðiþjónustu skóla hjá Reykjavíkurborg. Tekið er dæmi af samstarfi og samlegð sem skapast hefur í verkefnum á Tungumálatorginu og athyglinni sérstalega beint að verkefninu Okkar mál í Fellahverfi (http://tungumalatorg.is/okkarmal/). Fjallað er um hvernig tekist hefur að tengja fræða- og rannsóknarsamfélagið í háskólanum sem og hagnýt verkefni háskólanema við þróunarstarf á vettvangi skóla. Umfjöllunin er sett í samhengi við starfendarannsóknir, hönnunarmiðaðar rannsóknir og meginþætti starfsamfélaga á neti. Leitast er við að svara því hvernig hugmyndafræði starfssamfélaga og bakland MenntaMiðju styður við verkefni tengd Tungumálatorginu og hvaða gildi það hefur fyrir þróunarverkefni að hafa bein tengsl við fræðasamfélag háskóla.

3. Náttúrutorg – virkni og gagnsemi vaxandi samfélags

Svava Pétursdóttir: Nýdoktor v/Menntavísindasvið HÍ, verkefnastjóri Náttúrutorgs, svavap@hi.is.
Glærur Svövu

Náttúrutorg er verkefni sem miðar að því að efla starfssamfélag náttúrufræðikennara. Náttúrutorg stendur fyrir  þrenns konar starfsemi: vinnustofum og fundum, samfélagi eða hóp á Facebook og vefnum Náttúrutorghttp://natturutorg.is . Í samfélaginu eru kennarar og annað áhugafólk um náttúrufræðimenntun af öllum skólastigum. Sagt verður frá starfsemi torgsins á öðru starfsári þess og leitast við að skoða það hvaða hlutverki verkefni eins og Náttúrutorg getur haft í starfsþróun kennara. Kynntar verða niðurstöður úr mati á jafningafræðslu í svokölluðum menntabúðum sem haldnar voru um verklega kennslu. Matið var unnið með spurningalista og rýnihóp. Þróun vefsamfélagsins og virkni í því verður skoðuð og gefin dæmi um innlegg. Fyrstu niðurstöður benda til þess að sterkur kjarnahópur sé að myndast í hópnum sem telur yfir 160 manns. Umferð í hópnum virðist vaxandi og yfir 100 meðlimir sjá hvert innlegg. Í lokin verður horft til framtíðar hvernig torgið megi best mæta markmiðum sínum að styrkja fagþekkingu og samstarf náttúrufræðikennara.

4. Sérkennslutorg  uppbygging og tenging við samfélagsmiðla
Hanna Rún Eiríksdóttir
: Verkefnastjóri Sérkennslutorgs, hanna.run.eiriksdottir@reykjavik.is
Glærur Hönnu Rúnar

Fjallað verður um notkun samfélagsmiðla á Sérkennslutorgi til að sameina hópa fólks um ákveðin málefni. Í því sambandi verða skoðaðir hópar sem tengjast notkun spjaldtölva í skólum og sér í lagi hvernig spjaldtölvur hafa reynst í vinnu með nemendum með sérþarfir. Fjallað verður um virkni hópa á samfélagsmiðlum og þróun samræðna og samstarfs þeirra. Skoðaðar verða umræður sem skapast í hópunum og hverjir leiða umræðurnar.  Þá má einnig velta fyrir sér hlutverki verkefnastjóra torgs til að hvetja til umræðna og halda virkni í þeim. Fjallað verður um aðkomu háskólanema að torginu og sérstaklega áhuga þeirra á að hanna og aðlaga smáforrit að þörfum nemendum með sérþarfir. Loks verður fjallað um tengingar verkefnastjóra torgs við innlenda og erlenda framleiðendur smáforrita og þá möguleika að aðlaga smáforrit að íslensku tungumáli.

B. Síðari málstofa: Spjaldtölvur og önnur fartækni í námi og kennslu

1. Námsefnisgerð fyrir snjalltæki – Rafbókagerð
Salvör Gissurardóttir, salvor@hi.is

Skoðuð er þróun í útgáfu rafrænna námsgagna á Íslandi hvað varðar tækni og miðlunarmáta og sjónum einkum beint að námsefni sem áður var miðlað í bókum en er núna miðlað á stafrænt hátt og dreift gegnum Netið og nemendur lesa og vinna með námsefni í ýmis konar tækjum s.s. fartölvum, spjaldtölvum og símum.
Fjallað verður um þá möguleika sem kennarar og námsefnishöfundar á Íslandi hafa á árinu 2013 til framsetningar, útgáfu og dreifingar á texta og myndum í námsefni sem styðst við staðla, opinn hugbúnað og er nothæft á ýmis konar tækjum s.s. fartölvum, spjaldtölvum og símum. Skoðað verður sérstaklega hvernig staðall fyrir rafbækur (EPUB 3) tengist stöðlum fyrir vefsíður og vefuppsetningu (HTML5 og CSS3) og hvernig veftækni og rafbókagerð haldast í hendur.

2. Að standa í öldufaldi nýsköpunar í skólastarfi – rannsóknir sem styðja við samstarf, starfsþróun kennara og valdeflingu nemenda
Skúlína Hlíf Kjartansdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, shk10@hi.is; soljak@hi.is
Glærur
Aukinn hraði þekkingarþróunar og samskipta með fartækni hafa undanfarið sett sitt mark á skólaþróun á Íslandi.  Fjölþætt framboð námsefnis og námsgagna, dreifstýring í menntun og víðtækt samstarf skóla við stofnanir, fyrirtæki í samfélaginu auka á flækjustig skólastarfs en opna einnig nýjar leiðir og möguleika til samstarfs.  Snúið getur verið að ná yfirsýn og greina áhrifaþætti og virkar breytur í skólarannsóknum við slíkar aðstæður, þar sem heildarmynd krefst fjölþættrar gagnasöfnunar og virks samstarfs rannsóknaraðila, samstarfsaðila, skólafólks og nemenda.  Gerð verður grein fyrir helstu niðurstöðum úr matsrannsókn í Norðlingaskóla í Reykjavík þar sem spjaldtölvur hafa verið miðlægar í þróun kennsluhátta, námsefnisgerðar og eflingu atbeina nemenda í einstaklingmiðuðu námi.  Fjallað verður um viðhorf samstarfsaðila, kennara, skólastjórnenda, foreldra – og þeirra væntinga sem þessir ólíku aðilar hafa til verkefnis af þessu tagi og rannsókna á því. Þá verður gerð grein fyrir vali rannsóknaraðferða og kenninga um nám og kennslu sem rannsakendur beittu í því skyni að meta þennan áfanga í skólaþróun í Norðlingaskóla. Hugmyndir verða kynntar um nýtt rannsóknar- og þróunarverkefni (STAFN=skólaþróun, tækni, atbeini, farnám og nýsköpun) með þátttöku fjölmargra skóla og aðila um notkun spjaldtölva í íslenskum skólum. Þátttakendur munu vinna saman að því markmiði að þróa nám og kennslu með notkun fartækni The participants will work together towards the main project goal to develop teaching and learning with mobile technologies for innovative practices and collaboration.
Ath. einnig áfangaskýrsluna
 Sólveig Jakobsdóttir, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Helga Ósk Snædal Þórormsdóttir og Ragnheiður Líney Pálsdóttir. (2012). Spjaldtölvur í Norðlingaskóla – þróunarverkefni 2012-2013: Áfangaskýrsla. Reykjavík: Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun. Sótt 22. september 2012 af https://rannum.hi.is/rannsoknir/utgafa-a-vegum-rannum/
3. STAFN (Skólaþróun, tækni, atbeini, farnám og nýsköpun)

Fulltrúar aðila að STAFN áætluninni (sótt um til RANNÍS, júní 2013)

  • Menntavísindasvið: Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs: Sólveig Jakobsdóttir, soljak@hi.is, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, shk10@hi.is, Anna Kristín Sigurðardóttir, aks@hi.is
  • Skólastofan:  Ingvar Sigurgeirsson, ingvars@hi.is
  • Locatify:  Steinunn Anna Gunnlaugsdottir steinunn@locatify.com
  • Námsgagnastofnun
  • Skólar (Norðlingaskóli, Hólabrekkuskóli, Heiðarskólii Hvalfirði, Nesskóli, Grunnskóli Grundarfjarðar, Álftanesskóli, Dalvíkurskóli og Árskógarskóli)
  • Sveitarfélög (Reykjavík, Reykjanesbær)

Gjá hefur myndast á milli menntakerfisins og samfélagsins varðandi nýtingu nýrrar tækni. Breytinga er þörf til að þess að koma betur til móts við hvernig nemendur læra dags daglega. Farnám” (mobile learning) við mismunandi aðstæður hefur áhrif á hvernig við nálgumst upplýsingar og getur átt sér stað að frumkvæði og eftir þörfum nemenda. Í þessari málstofu verður rætt um breytingar í menntun á Íslandi með innleiðingu „fartækni“ (mobile technologies) sem hefur í för með sér nýjar áskoranir og tækifæri fyrir skóla. Ræddar verða hugmyndir um rannsóknar- og þróunarverkefnið STAFN (Skólaþróun, tækni, atbeini, farnám og nýsköpun) þar sem stefnt er að því að skoða innleiðingu og notkun spjaldtölva og annarrar fartækni í skólum víðs vegar um Ísland. Í verkefninu er gert ráð fyrir að skoða hlutverk tækni í skólaþróun, atbeina, nám og áhugahvöt nemenda ásamt hönnun náms og starfsþróun kennara. Markmið verkefnisins er einnig að skapa nýtt rannsóknarsvið á Íslandi og styðja við samfélag menntafólks sem hefur áhuga á farnámi og skólaþróun. Í þessari málstofu verður rætt um hvernig fartækni getur stutt við nýsköpun og skapandi starf í íslenskum skólum.  Aðilar að STAFN áætluninni hafa orðið í upphafi en gert er ráð fyrir virkri þátttöku viðstaddra í umræðu.

Áætlun

Sólveig Jakobsdóttir, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir. (2013). STAFN: School development and technology, students’ agency with mobile learning towards innovative learning and school practices – Project grant proposal 2014.  af https://dl.dropboxusercontent.com/u/24602162/STAFN/Rannis_umsokn_STAFN_2013.pdf